Nemendur munu alltaf þurfa hvatningu, stuðning og aðhald

12.09.2017 | Fréttir

Nemendur munu alltaf þurfa hvatningu, stuðning og aðhald

Um áttatíu manns sóttu umræðufund Kennarasambandsins, sem bar yfirskriftina Verður framtíðarkennarinn app?, á Fundi fólksins sem fram fór á Akureyri dagana 8. og 9. september síðastliðinn.

Spurt var hvort tölvu- og tæknivæðingin gæti aukið skilvirkni og gæði í skólastarfi; hvað þurfi til þegar tæknin er notuð í kennslu og verður kennarinn óþarfur í framtíðinni eða mun hlutverk kennarans taka breytingum?

Þátttakendur KÍ í pallborði voru Anna R. Árnadóttir, leikskólastjóri Krógabóls, Hans Rúnar Snorrason, grunnskólakennari í Hrafnagilsskóla, Guðjón H. Hauksson, framhaldsskólakennari í Menntaskólanum á Akureyri og Helena Sigurðardóttir, kennsluráðgjafi í Háskólanum á Akureyri.

Líflegar umræður sköpuðust á fundinum með þátttöku fjölda fundargesta.

Hans Rúnar Snorrason tók fyrstur til máls og sagði enga spurningu að notkun tölvutækni væri til þess fallin að auka skilvirkni í menntakerfinu. Hins vegar skorti á að mikið af því gæðanámsefni sem er á boðstólum í enskumælandi heimi væri þýtt þannig að hægt væri að nota það í íslenskum skólum. „Varðandi námsefni þá þarf menntamálaráðuneytið og Menntamálastofnun að hætta að búa til stafræn eyðufyllingarefni og snúa sér að þýðingum á vönduðu námsefni sem þegar er búið að þróa fyrir enskumælandi markað. Við eigum ekki að vera að finna upp hjólið í þessu,“ sagði Hans Rúnar og bætti við hann sæi ekki fyrir sér að kennarinn yrði að appi. „Kennarar verða aldrei óþarfir, nemendur þurfa hvatningu, stuðning, aðhald og sannfæringu fyrir að þeir séu á réttri leið. Nemandinn þarf að fá slíkt frá lifandi manneskju en vonandi breytist kennslan þannig að nemendur stundi sitt nám með nútímalegu námsefni.“

Nemandinn í forgrunni
Helena sagði tæknina opna gríðarlega marga möguleika þegar kemur að einstaklingsmiðuðu námi. Hún sagði að skólakerfið gæti verið skilvirkara; hér væri sífellt verið að bæta hlutum inn í námið án þess að taka annað út. Hún sagði fyrirkomulag sem tíðkast víða erlendis og felur í sér nemendamiðað nám eiga frekar erfitt uppdráttar hér á landi. „Hvenær verður nemandinn í forgrunni en ekki kennarinn?“ spurði Helena.

Hún sagði alltaf verða þörf fyrir kennara, „en þörfin fyrir einhæfa kennsluhætti, til dæmis að lesa upphátt af glærum eða leggja fyrir krossapróf, því má skipta út. Tæknin tæklar þetta en það þarf góðan verkstjóra með yfirsýn yfir einstaklingsþarfirnar,“ sagði Helena.

Guðjón hóf mál sitt á að ræða tilhneigingu þeirra sem tengjast skólamálum að hugsa kerfislægt; nú hafi markmið náms verið sundurliðuð og flokkuð í hæfni- og færniviðmið; hvert örstutt spor nemandans í skólanum skuli metið út frá þessu og árangur hvers og eins mældur með kerfislægum hætti. Hann sagði kennara ekki geta verið sjálfvirkar vélar og námsmenn væru ekki bara einhverjir sem sætu einir fyrir framan skjáinn. Skóli væri miklu meira en það.

Guðjón vitnaði í Pasi Sahlberg sem hefur sagt að hlutverk kennara sé að hjálpa nemendum að gera eins vel og mögulegt er. „Tilgangur skóla er að vera samfélag utan um nemendur þar sem þeir vinna í hópum og afsala sér ákveðnu einstaklingsfrelsi til hópsins og læra að búa í samfélagi. Það er skóli og þess vegna getur kennari ekki verið app,“ sagði Guðjón.

Anna sagði frá spjaldtölvuvæðingu í leikskólanum Krógabóli en þar hefur verið unnið með þá tækni síðustu tvö árin. Hún sagði verkefnið miðað að því að auka færni kennara í notkun spjalltækni og um leið til þess að auka fjölbreytni í kennsluháttum. „Við erum að leggja grunninn að framtíðinni og lítum á snjalltækin sem verkfæri og nýja leið fyrir börnin til að læra með áherslu á málrækt og sköpun,“ sagði Anna. Hún sagði verkefnið hafa gengið vel en sumum kennurum hafi þótt skorta á meiri handleiðslu og stuðning. Lögð hafi verið áhersla á að leikskólakennarar og leiðbeinendur læri saman á tæknina, hjálpist að og miðli sín á milli.

Ný hugsun í námsefnisgerð
Þátttakendur í pallborði voru alls ekki á því að kennarinn yrði app í framtíðinni en þeir voru sammála um að hægt væri að nota tæknina til að auka gæði menntunar og skólastarfs.

Hans Rúnar sagði eina helstu áskorunina felast í nýrri hugsun þegar kemur að námsbókagerð. Hann sagði sitt mat að draga þyrfti úr námsbókagerð, bækur yrðu oft fljótt úreltar, og horfa meira á námsefnisgerð í formi myndbanda til dæmis. Stafrænt námsefni væri þolinmótt og nemandinn gæti bakkað og horft aftur eins og oft hann teldi sig þurfa.

„Ef við eigum að lifa af sem stétt í þessum hrærigraut sem við erum í núna og í þessari öru þróun þá verðum við að gæta þess að tala um litlu hlutina þegar við tölum um skólann og hvað við erum í raun að gera í skólanum.“ Hann sagði kennara eiga að geta búið til námsefni úr öllu sem þeir sjá í umhverfinu og þótt vissulega væri verið að kenna ákveðnar aðferðir og hluti þá sé nauðsynlegt að tengja námið við raunveruleikann.

Það má segja að niðurstaða fundarins hafi verið sú að við erum á fleygiferð í tækniþróuninni; nemendur eru komnir á kaf í tækniheiminn. „Ef við ætlum að ná árangri og lifa í breyttum heimi þá ríður á að við þurfum að læra á þetta nýja umhverfi og hvernig við nýtum það til hagsbóta fyrir nám og kennslu, menntun og farasæld nemenda, kennarastarfið og skólastarfið,“ sagði Aðalheiður Steingrímsdóttir, varaformaður KÍ, þegar hún sleit fundinum.