Menntun án aðgreiningar – hvernig hefur tekist til?

21.08.2017 | Fréttir

Menntun án aðgreiningar – hvernig hefur tekist til?

Stýrihópur um eftirfylgni úttektar á mennun án aðgreiningar efnir til málþings í húsakynnum Menntavísindasviðs fimmtudaginn 24. ágúst. Til grundvallar málþinginu liggur fyrir úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi sem gerð var af hálfu Evrópumiðstöðvar.

Stýrihópurinn hefur skrifað skólastjórnendum og sveitarfélögum bréf þar sem farið er fram á að tekið verði vel í málaieitan þeirra kennara sem vilja sækja þingið.

Niðurstöður þessarar viðamiklu úttektar verða til umfjöllunar og umræðu á málþinginu, ásamt hugmyndum um aðgerðir. Í úttektinni kemur fram hvernig hefur tekist til við að innleiða hugmyndafræðina um menntun án aðgreiningar. Þetta er í fyrsta skipti sem svo heildstæð úttekt hefur verið gerð sameiginlega fyrir þessi þrjú skólastig.

Niðurstöðurnar voru kynntar á Safnahúsinu við Hverfisgötu 2. mars síðastliðinn og á þeim fundi var undirrituð samstarfsyfirlýsing þar sem fulltrúar KÍ, menntamálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Skólameistarafélags Íslands og og Heimilis og skóla lýstu yfir vilja til áframhaldandi samstarfs um að fylgja úttektinni eftir og markmiði hennar um að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.

„Að okkar mati er þetta mjög dýrmæt skýrsla og dýrmæt vinna sem hefur átt sér stað. Í skýrslunni felast margar áskoranir en í henni koma líka fram margt af því góða sem einkennir okkar menntakerfi," sagði Aðalheiður Steingrímsdóttir, varaformaður KÍ, á fundinum í mars. Hún bætti við að kennarasamtökin hefðu ríkan vilja til að taka þátt í vinnu stýrihóps um aðgerðaáætlun; kennarastéttin gæti lagt fram sérfræðiþekkingu og starfskrafta. Þá væri mikilvægt að koma skýrslunni út í skólasamfélagið til frekari umræðu.

Dagskrá málþingsins er eftirfarandi:

10:00-10:05 Þingsetning – formaður stýrihóps um eftirfylgni úttektar – Ragnheiður Bóasdóttir, mennta- og menningarmálaráðuneyti

10:05 Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra – Kristján Þór Júlíusson

10:15 Ávörp fulltrúa allra aðila sem standa að samstarfsyfirlýsingu um eftirfylgni úttektar um menntun án aðgreiningar á Íslandi (Samband íslenskra sveitarfélaga, velferðarráðuneyti, Kennarasamband Íslands, Skólameistarafélag Íslands og Heimili og skóli)

11:10 Gæðamenntun án aðgreiningar. Amanda Watkins og Verity Donelly, fulltrúar Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir

12:15 Léttur hádegisverður í boði mennta- og menningarmálaráðuneytisins

13:00 Fyrirmyndarstarfshættir í skólum – Hanna Ragnarsdóttir, prófessor í Háskóla Íslands

13:35 Vinna í sex málstofum.

Umfjöllunarefni: Grundvöllur gæðastarfs fyrir alla nemendur

14:10 Kaffihlé

14:50 Vinna í sex málstofum.

Umfjöllunarefni:

  1. Löggjöf og stefnumótun
  2. Gæðastjórnunarkerfi
  3. Stuðningur við lærdómssamfélag skóla
  4. Fyrirkomulag fjárveitinga
  5. Stuðningskerfi á öllum skólastigum
  6. Grunnmenntun og fagleg starfsþróun

15:30 Samantekt. Anna Magnea Hreinsdóttir, fræðslustjóri Borgarbyggðar, og Ingvar Sigurgeirsson, prófessor í Háskóla Íslands.

15:50 Lokaorð. Gunnar Gíslason ráðgjafi – málþingsstjóri.

Frétt um niðurstöður úttektarinnar

Samantekt um helstu atriði skýrslunnar

Menntun fyrir alla – skýrslan á ensku

Viðfangsefni: Menntun án aðgreiningar