Fyrirtæki leysir verkefni fyrir danska framhaldsskólanema

24.06.2017 | Fréttir

Fyrirtæki leysir verkefni fyrir danska framhaldsskólanema

Það er í sjálfu sér ekki fréttnæmt þótt ungt bjartsýnisfólk stofni fyrirtæki en það sem tvítugi Daninn Frederik Drews setti á fót fyrir nokkru er öðruvísi en flest, ef ekki öll, önnur. Fyrirtækið heitir FixMinOpgave sem kannski mætti á íslensku kalla Reddaðu verkefninu.

Segja má að heiti fyrirtækisins sé lýsandi fyrir starfsemina sem snýst um að leysa verkefni. Nánar tiltekið tekur fyrirtækið að sér að skrifa ritgerðir og önnur skrifleg heimaverkefni danskra menntaskólanema gegn greiðslu.

Ef til vill hljómar þetta einsog aprílgabb en það er öðru nær. Fréttir af þessu fyrirtæki og starfsemi þess rötuðu í nær alla danska fjölmiðla og vöktu mikla athygli, enda málið óvenjulegt svo ekki sé meira sagt.
Stofnandinn, Frederik Drews, segist hafa fengið hugmyndina þegar hann áttaði sig á því að stór hópur menntaskólanema teldi sig ekki hafa tíma eða færni til að leysa verkefni sem sett væru fyrir.

Vilja hærri einkunnir
Að sögn Frederiks Drews eru það fyrst og fremst nemendur sem eru að útskrifast úr menntaskólum sem leita til fyrirtækisins, bæði þeir sem eru að ljúka almennu stúdentsprófi og stúdentsprófi af viðskiptabrautum. Ástæðuna segir hann einkum þá að nemendur telji sig hafa fleiri og betri möguleika með hærri einkunnir. Samkeppnin verði sífellt harðari og með auknum kröfum háskólanna grípi fólk til þeirra hjálpartækja sem fáanleg eru. „FixMinOpgave er slíkt hjálpartæki,“ sagði Frederik Drews.

Þegar blaðamaður spurði hann hvort það væri ekki einfaldlega svindl að láta annan vinna verkefnið fyrir sig, svaraði Frederik Drews því til að hann liti ekki svo á. Hver og einn yrði að meta hvað væri mikilvægast fyrir viðkomandi og leggja áherslu á það. „Ef ég ætla til dæmis að læra markaðsfræði er ekki þar með sagt að ég þurfi að eyða miklum tíma í að læra frönsku, sem er þó skyldufag.“

Finna fyrirtækið á netinu og kaupa svo þjónustuna
Þeir sem hyggjast notfæra sér þjónustu FixMinOpgave setja sig einfaldlega í samband við fyrirtækið og segja hvað þeir vilja fá gert og fá þá upplýsingar um hvað það kostar, svona nokkurn veginn. Gjaldskráin miðast við lengd og umfang verkefnanna og hvaða einkunn nemandinn óskar eftir.

Þegar Frederik Drews var spurður hvert væri dýrasta verkefni sem fyrirtæki hans hefði látið frá sér sagði hann að það hefði verið stærðfræðiverkefni þar sem kaupandinn óskaði eftir toppeinkunn. Það kostaði þrjú þúsund krónur, um það bil 45 þúsund íslenskar. Skrifarinn fær 70 prósent gjaldsins en FixMinOpgave 30 prósent.

Skrifararnir
Frederik Drews segist ekki vera í vandræðum með að fá skrifara því margir vilji gjarna vinna sér inn aukapening. FixMinOpgave er, að sögn Frederiks, með tæplega eitt hundrað verkefnaskrifara á sínum snærum. Flestir eru núverandi menntaskólanemar sem hafa staðið sig vel í viðkomandi námsgrein eða fólk sem hefur lokið menntaskólanámi og er jafnvel komið í háskóla. En í hópi þeirra sem hafa boðið sig fram til verkefna skrifa eru líka kennarar.

„Það kom mér satt að segja nokkuð á óvart þegar kennarar fóru að hafa samband og bjóðast til að taka að sér verkefnaskrif,“ sagði Frederik Drews. Hann sagðist hins vegar ekki vilja ráða starfandi kennara til starfa, því það gæti kallað á ýmis konar árekstra, „og það kæri ég mig ekki um. Þetta sýnir aftur á móti að kennurum er ljóst að áherslan á háar einkunnir sé orðin alltof rík.“

Fá 200 beiðnir á dag
Út frá „rekstrarforsendum“ er óhætt að fullyrða að tímasetning stofnunar FixMinOpgave hafi verið hárrétt. Nú fer skólaárinu brátt að ljúka og það er tími annríkis og álags hjá nemendum. Það er líka mikið að gera hjá Frederik Drews og skrifurum hans. Um þessar mundir berast daglega um 200 beiðnir um verkefni og fyrirtækið á fullt í fangi með að anna þeim öllum.

„Miklu fleiri verkefni en við höfðum búist við,“ sagði Frederik Drews í viðtali við danskt dagblað. Hann bætti því við að þegar skólaárinu lyki legðist starfsemin líklega í dvala fram á haust.

Löglegt?
Svarið við þessari spurningu fer eftir því hver er spurður. Nemendur sem hafa keypt verkefnin, og danskir fjölmiðlar hafa rætt við, segja flestir eitthvað á þá leið að ef þeir hefðu haft nægan tíma hefði þeim ekki dottið í hug að fara þessa leið. En þegar tíminn er naumur og kröfur um góðar einkunnir skilyrði fyrir vinnu eða námi er freistandi að ,,stytta sér leið“ eins og einn nemandi komst að orði.

Nemendur sem ekki vilja notfæra sér þjónustu FixMinOpgave eru ekki sáttir við að aðrir geti náð sér í háar einkunnir með aðstoð annarra. „Hreint og klárt svindl og bitnar á þeim heiðarlegu,“ sögðu sumir.

Dönsku fjölmiðlarnir hafa undanfarið rætt við allmarga skólastjóra og kennara. Þeim ber öllum saman um að það geti engan veginn talist heppilegt að nemendur bregði á það ráð að kaupa verkefnaúrlausnir. Hins vegar sé erfitt að sannreyna hvort nemandi hafi sjálfur leyst verkefnið í hverju einstöku tilviki. Til þess yrði að hafa eins konar munnlega yfirferð og eins og aðstæður eru nú í dönsku skólakerfi er slíkt algjörlega óraunhæft vegna kostnaðar.

Anette Nordstrøm Hansen, formaður Félags framhaldsskólakennara, er ekki hrifin af því að nemendur geti keypt verkefnaúrlausnir sem þeir skili í eigin nafni. Hún segir að þetta sýni hins vegar hve samkeppnin sé hörð og að áherslan á háar einkunnir sé að sínu mati komin út í öfgar.

Frederik Drews og Nicklas Segatz Mortensen kynna sig á vefsíðu fyrirtækisins.

Borgþór Arngrímsson

Blaðamaður Skólavörðunnar í Kaupmannahöfn
Viðfangsefni: Danskt skólakerfi, Framhaldsskólar, Einkunnir