Læsi er samvinnuverkefni heimila og skóla

18.04.2018 | Fréttir

Læsi er samvinnuverkefni heimila og skóla

Læsi er langtímaverkefni og foreldrar gegna þar lykilhlutverki. Strax í fyrsta bekk er mikill munur á færni barna í læsi og líklegast er að sá munur muni frekar aukast en dragast saman. Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi í Háskóla Íslands sem bar yfirskriftina Hvernig má styðja við læsi heima? og er hluti af fundarröðinni Best fyrir börnin. Á fundinum var greint frá áhugaverðum rannsóknum og gefnar ráðleggingar varðandi læsi barna og ungmenna.

Fyrst fjallaði Freyja Birgisdóttir, dósent í Sálfræðideild Háskóla Íslands, um þetta mikilvæga samvinnuverkefni heimili og skóla sem læsið er. Í því gegna foreldrar lykilhlutverki og er þetta langtímaverkefni. Munur á orðaforða kemur einnig snemma fram hjá börnum enda helst hann í hendur við læsi. Orðaforði á leik- og grunnskólaaldri getur spáð fyrir um framtíðarorðaforða barns. Við 18 mánaða aldur kunna börn um 50 orð en þau læra mörg orð á dag. Við sex ára aldur eru orðin 6-10 þúsund og þau fjórfaldast á milli sex til tíu ára og sexfaldast á milli sex og 17 ára. Á leikskólaaldri er mikilvægt að efla hljóðkerfisvitund barna og það er t.d. gert með að klappa atkvæði eða sníða leiki með hljóð að aldri og getu barna.

Lesturinn hluti af heimilisbragnum
Þóra Sæunn Úlfsdóttir, talmeinafræðingur og læsisráðgjafi hjá Miðju máls og læsis hjá Reykjavíkurborg, kom með góð ráð til foreldra um hvernig eigi að haga lestrinum. Þegar lesið er fyrir börn á leikskólaaldri er verið að virkja heilastarfsemi og hljóðkerfisvitund. Börnin soga í sig orðaforðann og bækurnar verða að búa yfir jákvæðri upplifun. Bækurnar bjóða upp á marga möguleika þar sem hægt er að læra um staði, fólk og atburði og af þeim má læra ýmislegt um sorg og gleði, hluttekningu og kynslóðir ná að tengjast. Þóra ráðleggur foreldrum að byrja sem allra fyrst að lesa fyrir börnin. Hægt er að fara saman á bókasöfn, í bókabúðir, velja bækur sem líklegt er að kveiki áhuga barnanna og lesa einnig fyrirsjáanlega texta þannig að börnin læri hann og hjálpi til við að segja söguna.

Miklu máli skiptir að stoppa til að spjalla um efni og erfið orð, spyrja börnin um söguna til að heyra hvort þau fylgist vel með og einnig er ráðlegt að búa til tengingar á milli þess sem er lesið og þess sem barnið þekkir. Þóra bendir á að ef barn sýnir lestri lítinn áhuga væri hægt að leyfa barninu að velja bók og fletta sjálft og ef það er búið að fá nóg er gott að hætta og segja að haldið verði áfram daginn eftir. Tilgangurinn er ekki að klára bókina, heldur að barnið upplifi að lestur er góð skemmtun.

Tungumál skólasamfélagsins
Eftir að barn hefur náð góðum tökum á lestrinum skiptir máli að halda lestrarþjálfuninni áfram, segir Dröfn Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Miðju máls og læsis hjá Reykjavíkurborg. Hún bendir á að heima fyrir sé gott að börn heyri rætt um bækur og lestur og þá verði lesturinn hluti af heimilisbragnum. Fullorðnir eru fyrirmyndir barna er kemur að lestri.

Að síðustu ræddi Sigríður Ólafsdóttir, nýdoktor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, um tvítyngd börn. Sum orð lærast eingöngu í öðru málinu og þá er hætta á því að orðaforði hvors máls verði lítill og aukist hægt. Jafnframt vanti þá inn töluvert af orðum sem veldur því að barn á erfitt með að sjá samhengi í texta og minnkar þá lesskilningur. Við níu ára aldur þurfa börn að vera búin að læra að lesa og byrja þá að lesa til að læra. Skilaboð Sigríðar til foreldra tvítyngdra barna eru þau að styðja þarf börnin við að þróa færni í báðum málum sínum. Sérstaklega þarf að styðja þau til að læra tungumál skólasamfélagsins. Forsenda farsæls náms hjá tvítyngdum börnum er góð kunnátta og reglulegar framfarir í tungumáli skólasamfélagsins.

Heimasíður þar sem áhugasamir geta fundið meira efni um læsi barna:

Lesvefurinn

Miðja máls og læsis

Viðfangsefni: Læsi