Heimsins besti kennari

15.03.2016 | Fréttir

Heimsins besti kennari

Hanan Al Hroub er kennari ársins að mati Varkey-stofnunarinnar. Verðlaunin, sem kallast Global Teacher Prize á ensku, voru veitt síðastliðinn sunnudag. Frans páfi tilkynnti hver væri sigurvegarinn við hátíðlega athöfn í Dubai.

Hanan Al Hroub er frá Palestínu og ólst upp í flóttamannabúðum í Betlehem, þar sem hún varð reglulega vitni að ofbeldi. Hún gerðist kennari eftir að börn hennar og eiginmaður lentu í skotárás á leið heim úr skóla. Eiginmaður Hanan slasaðist í skotárásinni og hún segir atburðinn hafa haft mikil áhrif á börnin; andlega heilsu þeirra og hegðun. „Ég stóð ein í því að hjálpa börnum mínum. Engir kennarar komu til aðstoðar,“ segir Hanan sem hóf í kjölfarið kenna börnum sínum heima – og fljótlega bættust fleiri börn við. Hún hóf síðan kennaranám.

Hanan hefur síðan átt farsælan feril sem kennari. Hún berst fyrir friði og því að öll börn geti notið barnæsku. Hún leggur áherslu á að ná góðu og heiðarlegu sambandi við hvern einasta nemenda. Hanan hvetur nemendur til samvinnu um leið, fylgist vel með hvort nemandinn hafi sérþarfir og verðlaunar góða hegðun. Framganga hennar hefur haft áhrif út fyrir kennslustofuna og að sögn Varky-stofnunarinnar, hefur dregið úr ofbeldi í palestínskum skólum og er henni þakkað það.

Verðlaunaféð er 100 milljón dollarar og segir Hanan að það verði nýtt til að efla menntun palestínskra barna. „Ég er stolt yfir að vera palestínsk kona og kennari á þessu sviði,“ sagði Hanan þegar hún veitti verðlaununum viðtöku. Meðal þeirra sem sendu Hanan árnaðaróskir voru Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti, Vilhjálmur Bretaprins og Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna.

Tíu kennarar voru í lokahópnum, hver um sig framúrskarandi, en þeir eru frá Kenía, Indlandi, Pakistan, Bandaríkjunum, Japan, Finnlandi, Ástralíu og Bretlandi.

Vefsíða Varkey-stofnunarinnar. Hér fyrir neðan er stutt myndband um Hanan Al Hroub.


Viðfangsefni: Kennari, Palestína, Global Teacher Prize