Góð þátttaka í nýjum lesfimiprófum

28.08.2017 | Fréttir

Góð þátttaka í nýjum lesfimiprófum

Fyrstu niðurstöður lesfimiprófa, sem voru lögð fyrir nemendur í grunnskólanemendur í fyrsta skipti skólaárið 2015-2016, gefa til kynna að víða hafi náðst góður árangur, einkum meðal yngstu nemendanna, en þörf sé á umbótum þegar kemur að lesfimi barna á mið- og unglingastigi.

Niðurstöðurnar voru kynntar á fundi í menntamálaráðuneytinu í morgun. Þar kom fram að þátttaka í lesfimiprófum á þessu fyrsta ári var afar góð en 75 prósent nemenda í 1. til 10. bekk tóku þátt í prófunum í maí. Mest var þátttakan í 3. bekk, eða 83 prósent, en minnst í 10. bekk þar sem 54 prósent nemenda tóku þátt. Alls voru prófin lögð fyrir í 93 prósent skóla síðasta vetur.

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, fagnaði þeim góða árangri sem hefði náðst og þeirri samstöðu sem ríkir um verkefnið Þjóðarsáttamála um læsi. Hann sagði góða lestrarkunnáttu undirstöðu fyrir framtíð unga fólksins.

Með Þjóðarsáttmála um læsi, sem undirritaður var af mennta- og menningarmálaráðherra, fulltrúum sveitarfélaga og Heimilis og skóla árið 2015, hétu öll sveitarfélög landsins og foreldrar því að vinna að því að ná markmiðum stjórnvalda um læsi. Menntamálastofnun hefur yfirumsjón með Þjóðarsáttmálanum og þar starfar læsisteymi sem vinnur að innleiðingu aðgerða til að efla læsi.

Hafist var handa við að búa til mælitæki til að meta lestrarkunnáttu og framvindu nemenda í lesfimi, lesskilningi, orðaforða, stafsetningu og ritun og auk þess til að skima fyrir lestrarerfiðleikum. Mælitækið kallast Lesferill og eru lesfimiprófin hluti þess. Prófin eru hönnuð þannig að almennir kennarar geta lagt þau fyrir nemendur þrisvar sinnum yfir skólaárið.

Helstu niðurstöður
Unnið er út frá lesviðmiðum um fjölda rétt lesinna orða á mínútu fyrir alla bekki. Tilgreint er hversu mörg orð 90 prósent nemenda eigi að ná að lesa, hversu mörg orð 50 prósent nemenda nái og loks er skilgreindur sá fjórðungur sem best stendur í lestri ætti að ná.

Niðurstöðurnar benda til þess staðan í 5. til 7. bekk kalli á úrbætur en fjölmargar erlendar rannsóknir sýna að framfarir nemenda eru stöðugar upp í 6. og 7. bekk. Fyrirliggjandi gögn svara því ekki hvers vegna niðurstöðurnar eru á annan veg hérlendis.

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, sagði stofnunina veita sveitarfélögum, leik- og grunnskólum og foreldrafélögum ráðgjöf um hvernig bæta megi lestrarfærni. Hann sagði fyrstu niðurstöður sýna að mikilvægt sé að lögð sé áhersla á að bæta lesfimi nemenda á mið- og unglingastigi. Hann sagði Þjóðarsáttmála um læsi hafa haft mikil áhrif síðustu tvö árin og mörg sveitarfélög hefðu þegar sett sér læsisstefnu og annars staðar væri unnið að slíku.

Þórður Hjaltested, formaður KÍ, lýsti ánægju með að þetta mælitæki, lesfimiprófið, væri komið í gagnið. Hann sagði Kennarasambandið hafa tekið þátt í undirbúningi Þjóðarsáttmála um læsi og spennandi yrði að sjá framhaldið á næstu árum. Góð lesfimi barna væri lykillinn að öllu námi.

„Mennta- og menningarmálaráðuneytið telur mikilvægt að allt skólasamfélagið, sveitarfélög, foreldrar og fleiri áhugasamir um læsi haldi áfram af sama krafti að efla lestur barna. Með aukinni hæfni og færni í lestri geta börn og ungmenni betur tekist á við kröfur í nútímasamfélagi og eiga auðveldara með frekara nám og atvinnuþátttöku. Ráðuneytið mun áfram leggja áherslu á margvísleg verkefni sem tengjast Þjóðarsáttmála um læsi og Menntamálastofnun mun halda áfram að veita markvissa ráðgjöf og þróa betri verkfæri til að styðja við nemendur, kennara, foreldra, sveitarfélög og aðra sem vilja efla lestur barna,“ segir á vef ráðuneytisins.

Á vef Menntamálastofnunar er að finna ítarlega samantekt á niðurstöðunum en ekki verður greint frá því hvernig einstök sveitarfélög og skólar koma út.

Viðfangsefni: Lestrarkennsla, Lesfimi