Alþjóðlegt umhverfi þar sem hugmyndir flæða

22.12.2017 | Fréttir

Alþjóðlegt umhverfi þar sem hugmyndir flæða

slendingar hófu þátttöku fyrir rúmum aldarfjórðungi, árið 1992, og eru þátttakendur hérlendis að nálgast 30 þúsund. Ágúst Hjörtur Ingþórsson, sviðstjóri mennta- og menningarsviðs Rannís og forstöðumaður Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi, segir Erasmus+ hafa haft gríðarleg áhrif og þá einkum á líf allra þeirra milljóna sem hafa tekið þátt. „Stundum eru áhrifin mikil, stundum lítil. Það fer enginn, jafnvel þótt bara sé um að ræða fimm daga stutta heimsókn kennara í skóla í einu landi eða tveimur, án þess að taka eitthvað til baka. Ég tala nú ekki um þegar fólk dvelur ytra í lengri tíma, þá getur þetta hreinlega breytt lífi fólks til framtíðar,“ segir Ágúst.

Þegar horft er um öxl segir Ágúst að áhuginn hafi verið fljótur að glæðast strax á upphafsárunum. „Erasmus fór af stað árið 1987 og við dettum svo inn þegar verið er að semja um aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu. Við fáum fyrst svokallaða prufuaðild ásamt öðrum EFTA-þjóðum og því má segja að við höfum verið með nánast frá byrjun. Um leið og farið var að kynna Erasmus sýndi fólk áhuga – það þekki ég persónulega því ég hef starfað við þetta frá því í árslok 1991. Auðvitað heyrðust efasemdarraddir fyrst og ég man eftir kennarafundum í skólum þar sem fólk spurði hvort þetta samstarf samrýmdist stefnu stjórnvalda – sem var að við ætluðum ekki inn í Evrópusambandið.“

Fjármagn og tækifæri fullnýtt
Ágúst segir að þrátt fyrir stöku efasemdir hafi tækifærum verið vel tekið og áhuginn óx jafnt og þétt. „Það leið ekki langur tími þar til fólk fór að sækja um þátttöku í auknum mæli. Við höfum alla tíð notið góðs af því að vera fámennt land en fjármagni áætlunarinnar hefur frá 1995 verið að verulegu leyti dreifstýrt milli landa eftir ákveðinni formúlu sem kemur sér vel fyrir fámennari þjóðir. Þannig höfum við fengið hlutfallslega mikið út úr áætluninni og við höfum líka alltaf getað fullnýtt fjármagn og tækifæri en það hefur ekki gengið eins vel í öðrum löndum,“ segir Ágúst.

Þrjátíu ár eru ekki langur tími en margt hefur breyst á þessum tíma. „Það var ekki sjálfgefið að áhuginn yrði strax svona mikill því í raun var enginn jarðvegur til staðar fyrir samstarfi af þessu tagi fyrir utan svolítið norrænt samstarf í skólum. Þetta var pappírsheimur og mikið umstang gat fylgt því að skila umsókn, það þurfti að fá undirskriftir á faxi og fólk þurfti að yfirstíga ýmsar búrókratískar hindranir,“ segir Ágúst.

Stór hópur kennara á öllum skólastigum hefur að sögn Ágústs alltaf sýnt evrópsku menntasamstarfi áhuga. „Þátttakan hefur öll árin verið mismunandi á milli skóla og þetta veltur mikið á áhugasömum einstaklingum, það eru þeir sem drífa hlutina áfram.“

Áhugasamur einstaklingur og stuðningur skólastjórnenda er besta samsetningin og þá gerast hlutirnir. „Sem betur fer eru alltaf einstaklingar sem brenna fyrir þessu og í gegnum tíðina höfum við haft fólk, nokkurs konar ambassadora, sem er mjög virkt, þróar tengsl og lærir á skrifræðið sem fylgir því að skila umsókn og skýrslum um verkefnin,“ segir Ágúst.

Verkefnin sem fá Erasmus-styrk eru afar fjölbreytt en markmið áætlunarinnar er almennt að auka gæði í menntun á öllum skólastigum, efla sköpunargáfu, innleiða upplýsingatækni og efla starfsmenntun.

Þjónustan þykir góð
Umsóknir eru afgreiddar á Landskrifstofunni við Borgartún og ekki fást allar umsóknir samþykktar. Árangurshlutfallið er mismunandi á milli flokka og á milli ára. Ágúst segir að í mati sem gert var á framkvæmd áætlunarinnar í öllum löndunum þá hafi komið fram að fólk væri almennt sátt við þjónustuna hér á landi.

„Við vorum mjög ánægð að heyra að fólk væri sátt við þjónustuna, líka þeir sem höfðu fengið neikvætt svar við umsókn. Fólk fær endurgjöf, það er hægt að leita ráðgjafar hér á á skrifstofunni um hvað megi bæta en við höfum ekki tök á að setja fram mikið af skriflegum athugasemdum um hverja umsókn. Kennarar hafa alltaf verið duglegir að hafa samband og svo er auðvitað til stór hópur kennara sem hefur tekið þátt í verkefnum og kennarar leita auðvitað mikið hver til annars.“


Grunn- og framhaldsskólar eiga eftir að verða alþjóðlegri
Erasmus+ er ekki bara stærsta menntaáætlun veraldar heldur er hún einnig talin best heppnaða áætlunin í sögu Evrópusambandsins. „Þessi áætlun hefur verið velheppnuð frá upphafi og áhrifin á þátttakendur meira og minna mjög jákvæð. Það er erfitt að mæla nákvæmlega áhrifin á stofnanir og á skólastigin í heild. Við sjáum hins vegar hvað samstarf af þessu tagi getur haft jákvæð áhrif á þróun einstakra skóla og stofnana. Ég ætla að halda því fram að Háskóli Íslands og þær miklu breytingar sem hafa orðið síðustu 25 árin tengist virkri þátttöku í Erasmus. Til þess að verða fullgildur þátttakandi í áætluninni varð Háskólinn að auka kennslumagn á ensku. Við það jókst áhuginn jafnt og þétt og nú tekur HÍ við helmingi fleiri nemendum en þeir senda út – það skapar forsendur fyrir enn frekara alþjóðlegu samstarfi sem aftur eykur burði skólans á alþjóðavísu. Þannig vindur þetta upp á sig,“ segir Ágúst og bætir við að sams konar dæmi megi sjá í leik-, grunn- og framhaldsskólum, og einnig á ákveðnum landssvæðum.

„Mögulega er alþjóðasamstarf af þessu tagi enn mikilvægara í smærri skólasamfélögum úti á landi. Þar má til dæmis nefna Menntaskólann á Tröllaskaga sem er sérdeilis virkur og til margra ára hafa grunnskólarnir á Akureyri verið mjög virkir svo dæmi séu tekin,“ segir Ágúst.

Til framtíðar litið þá telur Ágúst víst að grunnskólinn og framhaldsskólinn muni feta sömu leið og háskólarnir hafa gert á undanförnum árum. „Þetta helst í hendur við samfélagslegar og tæknilegar breytingar. Við lifum í svo alþjóðlegu umhverfi, bilið á milli landa er orðið svo lítið, hugmyndirnar flæða hratt og nemendur eru fjölþjóðlegir í öllum skilningi. Það má alltaf finna einhvern í skólanum sem er fæddur í öðru landi eða hefur búið í öðru landi. Heimurinn færist sífellt nær og þess vegna held ég að bæði grunn- og framhaldsskólarnir eigi eftir að verða enn alþjóðlegri í framtíðinni,“ segir Ágúst Hjörtur Ingþórsson að lokum.

Greinin birtist í Skólavörðunni, 2. tbl. 2017


Viðfangsefni: Erasmus, Rannís