​Þurfum þjóðarsátt um að bæta laun kennara

28.08.2017 | Fréttir

​Þurfum þjóðarsátt um að bæta laun kennara

„Ég tel við munum þurfa að ná fram þjóðarsátt á næstu árum um að halda áfram að bæta laun kennara af því við erum að fjárfesta í börnunum okkar,“ sagði Illugi Gunnarsson, fyrrverandi menntamálaráðherra í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í gær.

Illugi segir að samfélagið ætti að setja sér þá stefnu að öll börn standi jafnt að loknu námi í grunnskóla og framhaldsskóla. Þau hafi sömu tækifæri í lífinu óháð efnahagslegum og félagslegum grunni. „Við getum sett það sem markmið ríkisins hvað varðar menntakerfið að tækifærin séu sem best og jöfnust fyrir börnin okkar,“ sagði Illugi. Það verði gert með því að fjárfesta í menntakerfinu.

Illugi segir að þótt tekist hafi að hækka laun framhaldsskólakennara mjög myndarlega þá þurfi að gera enn betur. Hann segist gera sér grein fyrir að kjaramál á Íslandi séu höfrungahlaup. Menn horfi til þess sem aðrir hafa fengið og krefjist þess sama, og helst aðeins meira.

Spurður hvort hann hafi ekki verið í lykilstöðu til þess að ná þessum markmiðum á meðan hann sat á ráðherrastóli sagði Illugi að kjarabætur til handa framhaldsskólakennurum hafi verið myndarlegar og þær hafi breytt mjög kjörum kennara. Þetta hafi verið nauðsynlegt en halda þurfi áfram að bæta kjör kennara. Gera þurfi kröfur til kennara og fyrir það þurfi líka að borga.

Illugi segist hafa trú á því að hægt sé að ná samfélagslegri samstöðu um að gera kennarastarfið eftirsóknarvert. „Við viljum fá mjög gott fólk til starfa og við ætlum þá líka að gera miklar kröfur til þess. Krafan er þessi: að börnin okkar hafi sömu tækifæri við lok námsins – og ekki bara það – heldur líka að námið hafi skilað þeim á þann stað að þau séu fær um grípa tækifærin.“

Áskorun framtíðarinnar

Inntak menntunar og aðgengi að menntun eru hlutir sem eru afar mikilvægir að mati ráðherrans fyrrverandi. „Við þurfum að gæta þess að við erum ekki í sama mæli og áður að mennta fólk til ákveðinna starfa. Það er talið að þeir krakkar sem eru núna í grunnskólanum að þegar þeir koma út á vinnumarkaðinn þá munu 60 til 70 prósent af þeim störfum sem við þekkjum í dag vera horfin og önnur störf vonandi komin í staðinn,“ segir Illugi.

Það er undir þessa framtíð sem við erum að mennta börnin okkar. Þau þurfi áfram að læra að lesa, reikna og þekkja ákveðin grunnatriði. Það sem skipti síðan miklu máli sé að þjálfa upp með þeim sjálfsbjargarviðleitni, þolinmæði, þolgæði, kunnáttu til að vinna í hóp og hvernig á að taka sigrum og ósigrum.

„Þetta er gríðarleg áskorun og ég efast um að menntakerfi samtímans, eins og við þekkjum það, hafi staðið frammi fyrir jafnflóknu viðfangsefni og þessu,“ sagði Illugi Gunnarsson, fyrrverandi menntamálaráðherra.

Hægt er að hlusta á Sprengisand hér.