​Misbrestur á hvernig skólar sinna list- og verkgreinum

07.03.2017 | Fréttir

​Misbrestur á hvernig skólar sinna list- og verkgreinum

Réttur nemenda til lögbundinnar kennslu í list- og verkgreinum er ekki virtur sem skyldi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Hagstofa Íslands, að beiðni mennta- og menningarmálaráðueytis, hefur aflað frá grunnskólum.

Ráðuneytið hefur unnið úr upplýsingunum fyrir skólaárin 2013-2014, 2014-2015 og 2015-2016 til þess að athuga hvort nemendur fái lögbundinn kennslustundafjölda í list- og verkgreinum sem þeim ber samkvæmt lágmarksviðmiðum í aðalnámskrá grunnskóla frá 2011. Frá þessu er greint á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Í aðalnámskrá grunnskóla er að finna viðmiðunarstundaskrá fyrir helstu námssvið. Listgreinar fela í sér tónmennt, myndmennt og sviðslistir og undir verkgreinar heyra hönnun, smíði, textílmennt og heimilisfræði. Ekki er gerður greinarmunur á list- og verkgreinum heldur aðeins tilgreint hversu margar kennslumínútur nemendur eiga að fá fyrir allar greinarnar til saman. Þannig geta skólarnir sjálfir ákveðið hvernig þeir dreifa þessum mínútum innan tímabilsins en gert er ráð fyrir að skiptingin sé með þessum hætti.

  1. 1. til 4. bekkur 900 kennslumínútur á viku
  2. 5. til 7. bekkur 840 kennslumínútur á viku
  3. 8. til 10. bekkur 340 kennslumínútur á viku

„Tími sem er ætlaður fyrir valgreinar er tilgreindur sérstaklega og eiga nemendur í 1. – 4. bekk að fá samtals 300 mínútur á viku í valgreinar, í 5. – 7. bekk 160 kennslumínútur og í 8. – 10. bekk skal verja 1.330 kennslumínútum í valgreinar,“ segir í frétt ráðuneytisins.

Niðurstaðan er sú að á skólaárinu 2015-2016 var 71 skóli af 153 undir lágmarksviðmiðum fyrir 1. til 4. bekk eða 46%, 111 af 148 skólum voru undir viðmiði eða 75%, og í 8. til 10. bekk voru 94 skólar af 135 undir lágmarksviðmiðinu eða um 70%.

„Þar sem verulegur misbrestur er á því hvernig skólar ráðstafa kennslumínútum til list- og verkgreina mun mennta- og menningarmálaráðuneytið upplýsa sveitarfélög um þessa niðurstöðu sem er ekki ásættanleg og ítreka mikilvægi þess að réttur nemenda til lágmarkskennslustundafjölda í list- og verkgreinum samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla sé virtur,“ segir í frétt ráðuneytisins.

Frétt á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Viðfangsefni: Grunnskólar, List- og verkgreinar, Aðalnámskrá, Valgreinar