Neistaflug á námstefnu FSL

17.03.2016 | Fréttir

Neistaflug á námstefnu FSL

Hótel Saga hefur iðað af lífi í dag enda hafa stjórnendur leikskóla þingað um nýjustu rannsóknir, faglegt starf og verkefni er lúta að starfsþróun og rekstri leikskólanna. Menntabúðir voru ellefu talsins. Meðal umfjöllunaefna var meistaraverkefni um hvernig má skapa eftirsóknarvert starfsumhverfi í leikskólum, leikskólalæsi, barnavernd og leikskólar, mismunandi rekstrarform og streita í starfi leikskólastjóra.

Námstefnan er árlegur viðburður Félags stjórnenda leikskóla og RannUng. Einkunnarorðin að þessu sinni voru „af litlum neista“ og má sannarlega segja að neistarnir hafi verið margir.

Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður FSL, setti ráðstefnuna, og sagði námstefnuna mikilvægt lóð á vogarskálar starfsþróunar. „Félagsmenn eru virkir í rannsóknum og þróunarstarfi leikskóla og við fáum í dag kynningu á nýjustu rannsóknum og jafnframt á þeim verkefnum sem hafa fengið styrk úr Sprotasjóði. Það verða iðandi menntabúðir hér framyfir hádegi og við fáum fullt a f góðum hugmyndum og innblæstri áður en við setjumst niður og hlustum á doktor Þórönnu Jónsdóttur sem kemur úr heimi viðskiptanna og hún segir okkur frá því hvernig við getum látið hugmyndirnar verða að veruleika," sagði Ingibjörg í ávarpi sínu.

Þá sagði Ingibjörg að félagar í FSL vissu hvers virði það er fyrir fagfólk og skólastarfið í heild að starfa í lærdómssamfélagi þar sem starfsþróun er eðlilegur hluti af starfinu. „Samspilið við háskólana vegur hér þungt. Þegar nemar koma í vettvangsnám er þegar vel tekst til um gagnvirkt nám að ræða sem einstaklingarnir og stofnunin njóta góðs af. Við viljum ekki stöðnun og talandi um litla neista og að halda eldinum lifandi.

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var Þóranna Jónsdóttir, forseti viðskiptadeildar HR, en erindi hennar bar yfirskriftina „Að blása í glæðurnar“. Þóranna fjallaði um hlutverk leiðtogans í að draga fram hugmyndir og það sem er enn mikilvægara en það; að skapa umhverfi til að hugmyndirnar verði að veruleika og beri af sér ávöxt.

Þóranna sagði leiðtoga þurfa að hafa kjark, búa yfir bjarsýni og geta sýnt skilning og sett sig í spor annarra. Ástríða og æðri tilgangur, skiptir líka miklu máli í stjórnum, „að geta sagt mér líður vel ef ég næ þessum árangri og eða kem þessu til leiðar," sagði Þóranna og bætti við að leiðtogar þurfi alltaf að finna neistann í eigin brjósti.

Nánar verður fjallað um efni námstefnunnar í Skólavörðunni á næstunni.